Skólaútgáfa. Kilja.
Dægurvísa
Árið 1965 kom út hin merka bók Dægurvísa, saga úr Reykjavíkurlífinu. Hér eru upphafslínur bókarinnar:
Það hafa fallið skúrir meðan bærinn svaf. Ekki þessar stóru hvolfur, sem dynja á götunni dropi í dropa, óslitinn straumur beint niður úr himninum, ofsafengnar eins og tár ástríðuheitrar konu, heldur gegnsæjar skúrir, hlýjar í logninu, hljóðar eins og tár ellinnar, skærar og léttar eins og tár bernskunnar. (Dægurvísa, saga úr Reykjavíkurlífinu, 1978, Iðunn, Reykjavík, bls. 21)
Sagan hverfist um þriggja hæða hús í Reykjavík og þá þrettán íbúa sem þar búa í sex vistarverum. Í hverjum kafla fær lesandinn að skyggnast inn í heim einnar persónu í einu á meðan aðrir kaflar eru sagðir frá sjónarhorni götunnar og hússins sjálfs. Líf persónanna fléttast saman á ýmsan hátt og í raun má segja að Dægurvísa sé ein fyrsta íslenska skáldsagan þar sem hópsagan kemur fram. Þar er engin ein aðalpersóna en saman mynda bæði rýmið og persónurnar púsluspil sem raðast saman við sögulok. Í sögunni má finna ljóðræna kafla og gott stílnæmi. Lokasetningar bókarinnar kallast á við upphafið þar sem gatan og regnið koma aftur við sögu og morguninn í upphafi bókar er að kvöldi kominn:
Dagur er liðinn, kyrrð næturinnar nálgast. En gatan vakir enn, þó hún dotti öðruhvoru. Það er byrjað að rigna. Og þrestirnir hafa hægt um sig. En þeir þegja varla lengi. Þegar styttir upp, jafnvel áður en styttir upp, hefja þeir sönginn aftur, þetta lag, sem er þó varla neitt lag, sömu tónarnir aftur og aftur: — Lifa — lifa.(Dægurvísa bls. 208)