Gleym mér ei : ástarsaga
Eitt kvöldið, þegar ég var nýkomin úr skólanum, birtist Solla í dyrunum. Ég sá strax að henni var eitthvað brugðið, henni Sollu, sem alltaf hafði verið svo glöð og kát, svona hafði ég aldrei séð hana fyrr, hún var svo hnípin og döpur. „Hvað hefur komið fyrir þig, Solla mín, þú ert svo ólík sjálfri þér, rétt eins og allar heimsins áhyggjur hvíli þér á herðum.“ Solla stundi við og tár komu fram í augun á henni, hún sagði: „Þetta er kannski eitthvað blandað ímyndun hjá mér, en Sveinn er orðinn mér eitthvað fráhverfur, vill, að mér finnst, helst forðast mig. Og þegar hann er ekki að vinna, fer hann í bæinn með strákunum í leigubíl og kemur svo oft aftur fullur. og skammar mig þá og segir, að ég sé leiðinleg og afskiptasöm. Og láttu mig í friði segir hann.“