Bókin er uppseld hjá útgefanda.
Hús úr húsi
Hús úr húsi er listilega fléttuð og spennandi skáldsaga um uppreisn gegn hversdagsleikanum og hina endalausu leit að ást og lífshamingju. Áhrifamátt sinn á hún ekki síst undir snjöllum umhverfis- og mannlýsingum.
„Allt mitt líf hefur verið fagurt.“ Þessi orð láta undarlega í eyrum Kolfinnu sem er nýflutt heim til mömmu sinnar eftir lánlausa sambúð og fær ekkert skárra að gera en leysa ólétta vinkonu sína af við þrif hjá misjafnlega hreinlátu fólki í Þingholtunum.
Það er óneitanlega ísmeygilegt starf að fara hús úr húsi og nostra við persónulega muni náungans enda vaknar húshjálpin smám saman til lífsins og dregst inn í stórfurðulega atburðarás. Þannig kynnist hún óperusöngkonu, fræðimanni og lögmanni, að ógleymdri hinni öldnu Listalín sem lumar á uppskrift að fögru lífi.
Hús úr húsi er önnur í röðinni af skáldsögum Kristínar Marju Baldursdóttur og hefur eins og aðrar sögur hennar notið mikilla vinsælda lesenda og gagnrýnenda.