BÓKAÚTGÁFAN Forlagið hefur sent frá sér bók sem raunar eru tvær bækur í einni: Annars vegar Það sem máli skiptir og hins vegar Orðabók ástarinnar. Höfundar eru hjónin Óttar Guðmundsson læknir og Erna Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Orðabók ástarinnar / Það sem máli skiptir
Í kynningu Forlagsins segir: "Undir heitinu Það sem máli skiptir er fjallað um ástina, tilfinningar og kynlíf ungs fólks, hið sársaukafulla en yndislega tímabil þegar barn breytist í fullorðna mannveru. Þar er rætt um sambönd ungs fólks, vandamál tilfinningalífsins, kynlíf, getnaðarvarnir, ýmis tilbrigði ástarlífsins, barneignir og kynsjúkdóma. Höfundarnir lýsa efninu á lifandi hátt með því að kveikja líf í tveimur ungum sögupersónum á síðum bókarinnar, þeim Adda og Evu, og fylgja þeim eftir í blíðu og stríðu þroskaáranna.
Hinn hluti bókarinnar ber heitið Orðabók ástarinnar og hefur að geyma um 800 uppflettiorð sem lúta að ástarlífi og kynhegðun manna. Í hana má sækja margháttaðan fróðleik um sögu kynlífsins, læknisfræðilegar útskýringar sem og gömul og ný orð um ástir og kynlíf.