Bókin heitir á frummáli: Nächstes Jahr in Jerusalem
Sjáumst að ári í Jerúsalem
Þegar Leó Rosenbach, dvergvaxinn hirðljósmyndari konungsins í Bæjaralandi, hrekst til Póllands sökum hreinskilni sinnar, sér hann mynd af glæsilegri sútaradóttur hjá hjónabandsmiðlara einum og fær engan frið í sínum beinum fyrr en hann hefur eignast hana nauðuga. Malwa dóttir þeirra brýtur af sér bönd upprunans og stefnir til mennta þótt slíkt þyki fásinna þegar stúlkur eiga í hlut. Í Varsjá býr auðmaðurinn Kaminski með konu sinni, dætrum og ellefu sonum – byltingarsinnum, verðandi Síberíuföngum og loks fótboltahetjum í Ameríku. Saga þessara tveggja ætta tvinnast í örlögum hinnar stoltu og gáfuðu Mölwu Rosenbach og kommúnistans kynþokkafulla, Hersch Kaminski.
Þessi saga hefur farið frægðarför um heiminn. Þetta er saga um djúpa visku, mikla flónsku og sáran harm. Engu að síður ólgar hún af óborganlegu skopi, ærslum og girnd, og gerist eins og allar miklar sögur á hinum dularfullu landamærum hláturs og trega.
André Kaminski fæddist í Genf árið 1923 og ólst þar upp, en fluttist uppkominn til Póllands, í land feðra sinna, þar sem hann vann að ritstörfum í nær aldarfjórðung. Árið 1968 var honum vísað úr landi og eftir það bjó hann lengstum í Ísrael og Norður-Afríku. Sjáumst að ári í Jerúsalem styðst við frásagnir hans eigin fjölskyldu sem hér eru færðar í stíl gyðinglegrar sagnalistar eins og hún gerist best. André Kaminski lést í Zürich árið 1991.