Ritsafn Þorgils gjallandi: Jóhanna Hauksdóttir og Þórður Helgason sáu um útgáfuna
Þorgils Gjallandi Ritsafn I-III
Upphafið að rithöfundaferli Þorgils gjallanda er að finna í sveitablöðum þeim, sem Mývetningar gáfu út. Eitt þeirra gaf hann út sjálfur, önnur í samvinnu við vini sína. Hann var skilgetið afkvæmi sannkallaðrar menningarbyltingar í Suður-Þingeyjarsýslu í lok 19. Aldarinnar og sögur hans voru framlag til þeirrar hugsjónar, að hamingja manna og dýra væri innan seilingar ef umhverfi þeirra væri bætt. En Þorgils fékk að reyna að slík barátta er tvísýn, gamlir draugar reyndust furðu lífseigir og áttu men sér marga málsvara og volduga. En Þorgils lét ekki knýja sig til þagnar, heldur efldist við hverja raun.
Þorgils gjallandi ruddi brautina í átt til nýs og sveigjanlegri stíls en áður hafði tíðkast og fekk fyrir það harða dóma. Sigurður Nordal svaraði þeim árásum og lætur sem hann sitji hjá Þorgils í rökkrinu: “Hann hefur verið að segja mér sögu, sem heldur áfram hugsuninni gegnum veturinn og dauðann, til nýs sumars og lífs. En vegurinn er erfiður, geðshræringin heftir tunguna, hann talar slitrótt. En ég skil hann, skil meira en orðin, líka undirölduna, sem brotnar í þögninni. Og sá rithöfundur, sem vekur svona skilning, hann hefur náð þeim tökum á málinu, sem mestu varða.”
Jón Stefánsson – Þorgils Gjallandi fæddist 2. Júní árið 1851 að Skútusöðum í Mývatnssveit. Hann var bóndasonur og ætt hans stóð djúpum rótum í sveitinni. Jón missti móður sína níu ára gamall, en faðir hans drukknaði í Mývatni árið 1868. Jón var næstu árin vinnumaður á ýmsum bæjum í sveitinni, en dvaldi þó sumarlangt í Húnavatnssýslu sem vinnumaður og auk þess hluta vetrar við nám hjá prestinum að Skinnastað í Öxarfirði. Að þessu frátöldu ól hann allan sinn aldur í Mývatnssveit og þar dó hann árið 1915.